Listalest LHÍ Listir

Listalest LHÍ

Í listkennsludeild Listaháskóla Íslands er saman kominn hópur fólks úr öllum listgreinum sem hefur það að takmarki að fræðast um og tileinka sér nýjar aðferðir við listkennslu með sem víðtækustum samfélagslegum og hugmyndafræðilegum skírskotunum.

Nemendur listkennsludeildar munu verða á Egilsstöðum dagana 11. og 12. september til að halda fimm þverfaglegar vinnusmiðjur fyrir unglinga í 8.-10. bekk í grunnskólum Fljótsdalshéraðs; Egilsstaðaskóla, Fellaskóla og Brúarásskóla, þar sem áhersla verður lögð á samruna listgreina.

Verkefnið kemur til með að mótast og þróast í samstarfi við listgreinakennara sem og aðra kennara í viðkomandi skólum og munu nemendur listkennsludeildar vinna í nánu samstarfi við þá.

Afurðir vinnusmiðjanna verða svo verða settar upp sem listasýning í Sláturhúsinu Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs, sýningarstjóri er Nanna Vibe Spejlborg Juelsbo, listamaður sem búsett er á Seyðisfirði. Opnun er kl.17 þann 12.september en sýningin mun svo standa út mánuðinn. Allir eru hjartanlega velkomnir!

Lýsing á vinnusmiðjunum fimm :

Satt og logið – fundnir hlutir og skapandi skrif
Nemendur vinna í hópum, fara á stúfana og finna hver um sig hlut til að koma með í vinnusmiðjuna. Nemendur spinna svo sögu hlutarins og mega “ljúga” eins og þeim sýnist. Þegar þeir hafa “logið” um sinn hlut finna þeir upp sögu fyrir hluti hinna tveggja í hópnum. Á sýninguni verða hlutirnir til sýnis ásamt sögunum.

Framtíðarsýn – gifsgrímur og bréf
Í smiðjunni ímynda nemendur sér og staðsetja sig í framtíðinni. Nemendum verður skipt upp í 3ja manna hópa og innan hópanna hjálpast nemendur við að gera gifsmót af andlitum hvers annars. Þeim verðu úthlutað gifsi og öðru efni sem þarf til að útbúa grímurnar en þær eiga að endurspegla hugmyndir nemenda um það hvernig þeir sjá sig fyrir sér í framtíðinni. Nemendur skrifa síðan bréf til sín frá framtíðarsjálfinu sínu – bréf úr framtíðinni.

Ljótt – að afhjúpa hugtakið “ljótt” – Collage og málun
Nemendur nálgast hugtakið “ljótt” með öðrum hætti en þeir eru vanir í þeim tilgangi að augu þeirra opnist fyrir nýrri vídd. Hvað veldur því að fólk segir að eitthvað sé ljótt? Nemendur leggja sig svo fram við að gera “ljót” listaverk og fá þannig tækifæri til að vera óhræddir við að gera eitthvað “rangt”. Unnið verður með Collage og málun. Unnið verður með gamalt og nýtt í alls kyns tímaritum, dagblöðum, bæklingum og pappakössum ásamt því að mála á nytjahluti og annað efni úr umhverfinu.

Ég er kraftur í verki! – Wabi-sabi – Innra og ytra landslag
Nemendur verða kynntir fyrir hugmyndafræðinni Wabi-sabi sem er japanskt orð og þýðir eitthvað sem er ófullkomið. Merking orðsins “landslag” fær útvíkkun og er það sett í nútímalegan skilning, innra/ytra landslag. Unnið verður með dans og gjörning. Farið verður í göngutúra þar sem nemendur safna í sarpinn og þegar í vinnusrýmið verður komið ræða nemendur saman um upplifun sína og tengja hana við Wabi-Sabi hugmyndafræðina. Síðan finnur hver hópur orð sem tengjast innra og ytra landslagi og skapa út frá þeim hreyfingar. Hugmyndin með þessari vinnusmiðju er að opna huga nemenda fyrir skynjun á umhverfi og túlkun á innra og ytra landslagi hvers og eins. Áhersla er lögð á að nemendur læri að staldra við og finna eigin andadrátt og takt hjartans.

Hversdagsleg hreyfi grafík – Danssýning
Nemendur fá grunnþekkingu í lögmálum dansins og vinna út frá hreyfingum og líkamlegri tjáningu sem nýtast fyrir daglegt líf og heilsu. Áhersla er lögð á nákvæmni tímasetningu og aga leikhússins. Nemendum verða kynnt hið daglega látbragð mannsins og hvernig dagleg hreyfing getur orðið að dansi. Nemendur vinna undir stjórn kennara og skapa sinn eigin dans.

Hér má sjá umfjöllun um Listalestina á Egilsstöðum:

Upplýsingar
Hvað

Listalest LHÍ

Hvenær

11.- 12. september 2018

Hvar

Egilsstaðir

Hverjir

Listkennsludeild LHÍ
Listgreinakennarar

Aldurshópur

8. - 10. bekkur

Aðstaða og tækni

Vinnustofur