Braidie er 15 ára, hún hefur ákveðið að það er ekki lengur fyrir hana að mæta í skólann og hún og mamma hennar fara óstjórnlega í taugarnar á hvor annarri þessa dagana. Bróðir hennar er fluttur í annað sveitarfélag og hún saknar hans, það er alltof mikil pressa á henni einni eftir að hann fór. Hún er heltekin af fréttaflutningi af raunverulegu máli ungrar stúlku sem var myrt af jafnöldrum sínum. Hún minnist þess þegar vinkona hennar tilkynnti einn daginn að í dag væri ,,skammardagur”, þá ættu allar að taka eina stelpuna fyrir og vera vondar við hana. Af hverju? Hún vissi það ekki sjálf, þetta var bara partur af skólanum. Dagarnir urðu fleiri og þær tóku alltaf sömu stelpuna fyrir. Braidie man alveg þegar hún grátbað um hjálp. Og hún man alveg hvernig það var að horfa á vinkonu sína, gerandann, og þekkja hana ekki fyrir sömu manneskju. Þær voru báðar, gerandinn og þolandinn, eins og skuggamyndir af sjálfum sér. En hvernig getur hún ein hjálpað þegar hópþrýstingurinn að taka þátt er svona mikill? Og við hvern ætti hún eiginlega að tala?
Skuggamynd stúlku er farandleiksýning fyrir unglinga um hlutverk þeirra sem verða vitni að einelti. Verkið fjallar að miklu leyti um hvernig Braidie upplifir sig í samfélaginu, henni finnst þrýst á sig á ólíka vegu úr ólíkum áttum, væntingar frá jafnöldrum koma ekki heim og saman við væntingar mömmu hennar, væntingar skólans eða jafnvel væntingar hennar sjálfrar. Allt er þetta eitthvað sem flestir unglingar kannast við úr eigin lífi. Verkið er því tilvalið til flutnings fyrir bæði unglinga og foreldra þeirra, og er tilvalið að tengja það umræðum og fræðslu um málefni á borð við einelti, sem er aðal viðfangsefni verksins, en einnig hópþrýsting, samband foreldra og unglinga og fleira sem viðkemur unglingsárunum. Leikari er mjög opin fyrir því að taka þátt í slíkum umræðum.
Hreindís Ylva Garðarsdóttir Holm útskrifaðist frá Guildford School of Acting með fyrstu einkunn sumarið 2013. Eftir útskrift bjó Ylva og starfaði í London um nokkurt skeið áður en hún flutti aftur til Íslands. Fyrir leiklistarnám hafði Hreindís Ylva leikið töluvert og ber þar helst að nefna kvikmyndina Órói en hún hlaut tilnefningu til Edduverðlauna fyrir leik sinn í myndinni, þá aðeins tvítug. Einnig hafði hún leikið í uppfærslu Vesturports og Borgarleikhússins á Jesus Christ Superstar og í söngleiknum Annie í Austurbæ.
Eftir útskrift hefur Hreindís Ylva helst unnið í stutt- og kvikmyndaverkefnum í Bretlandi. Kvikmyndin Dead Unicorns er væntanleg og þar á eftir kvikmyndin Reconcile. Stuttmyndin Blessuð kom út í lok síðasta árs og fer nú víða á kvikmyndahátíðir. Einnig lék hún í jólaauglýsingu Icelandair sem hlaut auglýsingaverðlaunin Lúðurinn 2015 sem ‘Besta leikna auglýsingin’. Auk þess að starfa sem leikkona hefur hún mikið unnið með börnum og unglingum sem leikstjóri og leiklistarkennari.
Agnes Wild er leikkona, leikstjóri og rithöfundur. Meðal verkefna sem hún hefur leikstýrt eru: Á eigin fótum í Tjarnarbíói, Kvöldvaka í Norðurljósasal Hörpu og Norræna húsinu og Ronja ræningjadóttir sem valin var athyglisverðasta áhugasýning ársins 2015 og sýnd í Þjóðleikhúsinu. Einnig var hún aðstoðarleikstjóri Í hjarta Hróa Hattar í Þjóðleikhúsinu í samstarfi við Vesturport. Auk þess hefur hún leikstýrt sýningum með leikhópum í Bretlandi svo sem: Play for September, The Soft Subject og KATE.
Sýningin Á eigin fótum var tilnefnd til tvegggja grímuverðlauna í flokkunum “Barnasýning ársins” og “Dans og sviðshreyfingar”. Einnig hlutu sýningar í hennar leikstjórn, Play for September og KATE NSDFest Edinburgh Award árin 2013 og 2014 auk þess sem Agnes hlaut sérstaka viðurkenningu fyrir leikstjórn fyrir hið síðarnefnda.
Næstu sýningar hjá Agnesi eru: Fyrirlestur um eitthvað fallegt og Á eigin fótum sem báðar verða sýndar í Tjarnarbíói í september og október.
Skuggamynd af stúlku
20. - 22. febrúar 2018
Austurland
Hreindís Ylva Garðarsdóttir Holm leikkona
Agnes Wild leikstjóri
7. - 10. bekkur
Rými, ljósabúnaður með ljósaborði, hljóðkerfi.