Dans fyrir alla Dans

Dans fyrir alla

Dansgarðurinn stendur fyrir dansnámskeiði fyrir grunnskólanemendur þar sem tveir danslistamenn kynna dans fyrir nemendum. Byrjað er á stuttri sýningu í skólanum, eða jafnvel úti ef veður leyfir, og er öllum nemendum skólans boðið á sýninguna.  Að sýningu lokinni er nemendum skipt upp í hópa og fá þau tækifæri til þess að prófa sig áfram, búa til og ræða dans.

Byrjað er á upphitun sem að leiðir út í könnunarleiðangur um rýmið. Kannaðir eru alls kyns hreyfimöguleikar líkamans og hvernig hann tengist rýminu, ryþma og tónlist. Þetta er frábært tækifæri fyrir nemendur til þess að virkja sköpunarkraftinn í gegnum danslistina og veitir þeim góða innsýn inn í þá listgrein.

Það er ekkert rétt eða rangt í dansinum heldur gefst hverjum og einum tækifæri til þess að skapa sinn dans með sínum líkama, því öll erum við jú einstök og  fullkomin eins og við erum.

Námskeiðinu lýkur með umræðum þar sem nemendur fá tækifæri til þess að ræða um námskeiðið, um dans, danslistamenn og allt það sem þessi heimsókn hugsanlega vekur upp hjá þeim.

Dans fyrir alla er átak Dansgarðsins til að auka aðgengi danskennslu fyrir öll börn á Íslandi.

Dansgarðurinn er staðsettur í Reykjavík en býður uppá sérsniðin námskeið í skóla um allt land.

www.dansgardurinn.com

Valgerður Rúnarsdóttir er dansari, danskennari og danshöfundur útskrifaðist frá Listaháskólanum í Osló 1998. Sem danshöfundur hefur hún samið verk fyrir Íslenska dansflokkinn, Reykjavík dans festival, leikhúsuppfærslur, kvikmyndir, auglýsingar o.flr. Hún hefur hlotið Grímuverðlaun fyrir dansverkin F A R A N G U R og Eyjaskegg auk þess hefur hún hlotið Grímutilnefningar fyrir verk sín og sem dansari. Nýjasta verk Valgerðar, Kæra manneskja, var frumsýnt í Tjarnarbíó 2017.
Á undanförnum 10 árum hefur hún einnig starfað með danshöfundunum Sidi Larbi Cherkaoui, Damien Jalet og Ernu Ómarsdóttur og sýnt verk þeirra víða um heim. Áður starfaði hún sem dansari hjá Íslenska dansflokknum um árabil. Um þessar mundir tekur Valgerður þátt í Rocky Horror hjá Leikfélagi Reykjavíkur.

Snædís Lilja Ingadóttir er útskrifuð með BA af samtímadansbraut Listaháskóla Íslands 2009. Snædís hefur starfað sem dansari/leikkona, danskennari og danshöfundur frá útskrift og hefur unnið með ýmsum danshöfundum, hún dansar í verkinu Vera og vatnið eftir Tinnu Grétarsdóttur sem hlaut Grímuna sem Barnaverk ársins 2016 og er ennþá að ferðast um heiminn. Hún dansaði með Íslenska Dansflokknum í verkinu FARANGUR eftir Valgerði Rúnarsdóttur og var tilnefnd til Grímunnar sem dansari ársins 2014 fyrir hlutverk sitt þar. Undanfarið ár hefur hún verið að vinna með Steinunni Ketilsdóttir í verkefninu Expressions, Valgerði Rúnarsdóttir í verkinu Kæra Manneskja sem var frumsýnt í september og Katrínu Gunnarsdóttir í Crescendo sem var frumsýnt síðastliðinn mars og var tilnefnd til Grímunnar sem dansari ársins fyrir hlutverk sitt þar. Einnig hefur Snædís verið að kenna tæknitíma í LHÍ og Kramhúsinu.

Upplýsingar
Hvað

Dansgarðurinn - Dans örsýning og vinnustofa

Hvenær

3. - 5. september, 1. - 3. október 2019

Hvar

Suð-vesturland: Snæfellsbær, Grundarfjörður, Stykkishólmur. Vesturland: Strandir

Hverjir

Valgerður Rúnarsdóttir
Snædís Lilja Ingadóttir

Aldurshópur

Grunnskólaaldur - Fyrirkomulag með hverjum skóla

Aðstaða og tækni

Hljóðkerfi og rými til að dansa í