Hjálmurinn Tónlist

Hjálmurinn

Verkið heitir Hjálmurinn og er samvinnuverkefni tónlistarhópsins Adapter, tónskáldsins Söru Nemtsov og barnabókarithöfundarins Finn-Ole Heinrich.

Hjálmurinn er í anda Pétur og Úlfsins, saga fyrir börn þar sem nútímatónlist fléttast inní frásögnina. Það er leikarinn Guðmundur Felixsson sem fer með hlutverk sögumanns.

Verkið byggist á smásögu eftir Finn-Ole sem er vinsæll þýskur barnabókahöfundur. Finn-Ole hefur meðal annars hlotið þýsku barnabókaverðlaunin fyrir bækur sínar en þau hlaut hann ásamt íslenska teiknaranum Rán Flygering sem hann vinnur náið með.

Sagan er nokkuð áhrifamikil en hún er eintal stráks sem segir frá því að hann sé með hjálm á hausnum. Hann ætlar ekki undir neinum kringumstæðum að taka hjálminn af, festir hann á sig með keðju og stórum lás. Hann ætlar ekki að taka hjálminn af fyrr en pabbi hans kemur aftur. Í sögunni er nokkuð opið hvað kom fyrir pabbann en ef maður hlustar vel skilur maður að hann er dáinn. Sagan endar á því að strákurinn er að velta fyrir sér hvað fornleifafræðingar munu halda þegar beinagrind hans finnst eftir 1000 ár með hjálm hlekkjaðan við hauskúpuna. Kanski muni þeir undrast, eða kanski verða þá allir 1000 sinnum gáfaðri en allir núna.

Textinn er lesinn af leikara og hefur Sara Nemtsov fléttað hann snilldarlega inn í tónlistina. Texti og tónlist renna saman, tónlist verður að texta, texti að tónlist og líkist helst lifandi útvarpsleikhúsi.
Verkið er sett þannig á svið að áhorfendum er sagt að þeir fái að vera viðstaddir upptöku á útvarpsleikriti. Þeim er sagt að hafa hljótt þegar þeir ganga í salinn og þegar þeir ganga inn er hljóðprufa í gangi.

Upptökustjórinn biður um að fá að heyra í mismunandi hljóðfærum og lagar til hljóðnema. Áhorfendur byrja strax að hlusta mjög einbeitt og þeim er einnig kennd nokkur hljóð sem þeir svo eiga að framkvæma á völdum stöðum í verkinu. Einnig hefur þessi folreikur þann tilgang að sýna hljóðærin og kenna hvað þau heita og hvernig þau hljóma. Hver sýning er svo tekin upp og að sýningu lokinni er upptökunni hlaðið upp á netþjón og sýningargestir fá kóða svo þeir geti hlaðið uptökunni niður á netinu.

 

Upplýsingar
Hvað

Tónlist

Hvenær

4. -5. júní

Hvar

Salurinn Kópavogur, Bæjarbíó Hafnarfjörður

Hverjir

Adapter Ensamble

Aldurshópur

5. - 6. bekkur

Aðstaða og tækni