Í listkennsludeild Listaháskóla Íslands er saman kominn hópur fólks úr öllum listgreinum sem hefur það að takmarki að fræðast um og tileinka sér nýjar aðferðir við listkennslu með sem víðtækustum samfélagslegum og hugmyndafræðilegum skírskotunum.
Nemendur listkennsludeildar munu verða í Hveragerði þann 3. og 4. maí og halda þverfaglegar vinnusmiðjur fyrir unglinga í 8. og 9. bekk grunnskóla Hveragerðis, Stokkseyrar/Eyrarbakka, Þorlákshafnar og Flóaskóla, þar sem áhersla verður lögð á samruna listgreina.
Verkefnið kemur til með að mótast og þróast í samstarfi við listgreinakennara sem og aðra kennara í viðkomandi skólum og munu nemendur listkennsludeildar vinna í nánu samstarfi við þá.
Afurðir vinnusmiðjanna verða svo verða settar upp sem listasýning í Listasafni Árnesinga þann 4.maí og mun sú sýning standa út maí mánuð, allir velkomnir!
Fjórar vinnusmiðjur verða haldnar og hér fyrir neðan er gróf lýsing af þeim. Vinnusmiðjurnar eru í mótun og þróun í samvinnu við kennara starfsstaðanna allt þar til viðburður á sér stað.
Leikrænar ljósmyndir
Kennarar: Jóhanna, Sigrún og Vigdís Gígja.
Kynnt verður fyrirbærið “tableau vivant” fyrir nemendum, sem er stillimynd sett upp af leikurum í búningum fyrir framan málaðan bakgrunn, oft með málverk og/eða gríska tragedíu að fyrirmynd. Vinsældir slíkra leikræna stillimynda voru í hámarki um aldamótin 1900, m.a. annars á Íslandi og var það þá Sigurður Málari sem hannaði bakgrunni og búninga. Leiklistaræfingar og leikir verða notaðir til að skapa sögu, en einungis með stellingum og svipbrigðum. Í viðbót verða notaðir langir efnisstranga í ýmsum litum til að búa til búninga og bakgrunn, hægt að verður að hengja, hnýta og títiprjóna hvað sem okkur dettur í hug. Lokaniðurstaðan verða ljósmyndir af upp stillingunum (líklega prentaðar út í háum gæðum) en einnig gæti leikmyndin staðið í sýningunni, og fólki boðið að klæðast búninga og taka mynd af sér.
Hljóðfærin okkar
Kennarar: Elín Helena og Rúna Vala
Nemendur munu vinna í litlum hópum við að búa til óhefðbundin hljóðfæri úr fundnum hlutum, t.d. rörbútum, málmi, gleri og fleiru. Efnisveita verður tilbúin á staðnum, en einnig geta nemendur komið með efni heiman frá sér eða úr nærumhverfi sínu. Á staðnum verða öll verkfæri sem nýta má við gerð þeirra. Ætlunin er að hafa samband við fyrirtæki í Hveragerði og Reykjavík og athuga hvort hægt sé að fá gefins afganga frá þeim sem notast má við í hljóðfæragerð. Sem kveikjur fyrir nemendur verður farið í stuttar kynningar og umræður um álíka hljóðfæragerð, hljóðverk, hljóð, hlustun, náttúruvernd og sjálfbærni. Það að nálgast verkefnið á þennan hátt dýpkar og fjölgar mögulegum hugsanatengingum við það.
Í lokin verða öll verkin hengd upp í innsetningu á Listasafni Árnesinga og spilað á þau á opnuninni. Gestum sýningarinnar gefst einnig kostur á að spila á þau. Í verkefninu reynir á sjálfstæði nemenda, getu þeirra til að leysa vandamál og samvinnu. Þeir fá tækifæri til að vinna bæði huglægt (hugtök) og hlutbundið (að búa til og skapa) með huga og hönd.
Veggtjald – textílverk. Hvernig sé ég framtíðina?
Kennarar: Andrea, Björg, Kristín og Svala.
Unnið verður veggtjald (refill) á textíl með pappír, tússlitum, garni, málningu, öryggisnælum, penslum o.fl. Nemendur vinna í hópum að verki um það hvernig framtíðin gæti litið út. Hver hópur vinnur með 50 cm x 100 cm af hvítu efni þar sem unnið verður með blandaða tækni til að skapa framtíðarsýn. Hvernig munum við ferðast? Hvað munum við borða eða verða allir hættir að vera í símunum? eru dæmi um spurningar sem hóparnir gætu tekist á við. Verk hópanna verða síðan sett saman í eitt heildarverk sem verður um það bil 10 metra langt veggtjald. Formið er frjálst þar sem meðal annars verður hægt að styðjast við graffiti-stílinn en sköpunarkrafturinn mun ráða för.
Nú-stilling
Kennarar: Fríða, Ragga og Selma.
Við gerð verkanna stillum við inn á núvitundina þar sem við leitumst við að tengja okkur við stað og stund sem er hér og nú! Nei…. núna! Nei…. núna!
Í núinu finnum við efniviðinn okkar, grípum hann, tökum hann inn og filterum í gegnum skynfærin og taugatrefjarnar, við möllum hann í vitund og óvitund, teyjum og sveigum, setjum í nýtt samhengi, nýjan skala þar til hann sjatlar og sest ummyndaður í sitt endanlega form sem verður til sýnis í Listasafni Árnesinga.
Hugmyndin er að vinna með náttúru, byggingar og samfélag, taka upp mörg stutt myndbönd sem verða klippt saman og taka upp hljóð og vinna úr þeim hljóðverk. Við förum á vettvang og skrásetjum hluti, hljóð og fyrirbæri sem tæla skynfærin okkar, lítilfjörleg atriði geta í raun verið stórbrotin og verðug viðföng ef við erum tilbúin fyrir þau og opin. Við notumst við hljóðupptökutæki, síma og / eða myndavélar í vinnuferlinu sem tekur okkur á ólíka staði.
Niðurstaða verkefnisins eða lokaútkoman sem verður til sýnis í listasafninu fer eftir framvindu samvinnu okkar allra og samtali. Það sem við vitum er að það mun samanstanda af hljóði, myndbandsverkum og strúktúr / innsetningu sem við vörpum myndböndunum á og gæti verið áhugavert að hanna slíkt úr gróðurhúsaefni.
Listalest LHÍ
3. og 4. maí 2018
Suðurland
Listkennsludeild LHÍ
Listgreinakennarar
8. - 9. bekkur
Vinnustofur.