Einu sinni var… Myndlist

Einu sinni var…

Sýningin „Einu sinni var…“ byggir á myndverkum Ásgríms Jónssonar við þjóðsögur Jóns Árnasonar. Ásgrímur miðlar sögunum um álfa, drauga og tröll á kynngimagnaðan hátt. En segja má að hann hafi myndgert íslenska tröllið eins og við sjáum það fyrir okkur í dag. Á sýningunni eru nokkur valin verk sem tengjast nánasta umhverfi Árnessýslu eins og t.d; Tröllin á Hellisheiði og Jóra í Jórukleif. „Einu sinni var…“ er sérstaklega sett upp með börn í huga.

Listasafn Árnesinga vill efla tengsl við skóla í héraði og eiga þátt í því að örva sköpunargleði barna og hvetur grunnskóla í héraði til samstarfs. Nemendur fá að kynnast fjölbreyttum og skapandi aðferðum við að setja saman sögu og myndir og unnið er útfrá völdum verkum og þjóðsögum. Verkefnið er gerð sprettimyndabóka út frá innihaldi sýningarinnar, tvær mismunandi gerðir svo nemendur hafi val. Í haust verður þeim skólum sem taka þátt send vendikennsla í hreyfimyndaformi sem innlögn að verkefninu.

Nemendur heimsækja safnið, eiga góða stund og fræðast um sýninguna í gegnum leiðsögn og sjá fleiri úrlausnir í tengslum við sprettimyndabækur. Verkefnið er síðan framkvæmt í myndmenntatíma í viðkomandi skóla. Að því loknu, í nóvember – desember, væri áhugavert að setja upp sýningu í kaffistofu safnsins sem stæði yfir frá fimmtudegi til sunnudags fyrir hvern skóla. Nánari útfærsla á því fer eftir þátttöku og í samráði við kennara.

Upplýsingar
Hvað

Myndlist / Myndasögusprettibók

Hvenær

1. ágúst - 15. október 2019

Hvar

Listasafn Árnesinga

Hverjir

Listasafn Árnesinga

Aldurshópur

Grunnskólaaldur - fyrirkomulag og aldurshópur með hverjum skóla

Aðstaða og tækni

Leiðsögn á sýninguna Einu sinni var… sögustund og sprettimyndasögubók