Djákninn á Myrká Tónlistarsaga

Djákninn á Myrká

“Bíddu hérna, Garún, Garún,
meðan eg flyt hann Faxa,
Faxa, upp fyrir garða, garða.”

Tónverkið, “Djákninn á Myrká” eftir Huga Guðmundsson hlaut fyrstu verðlaun í samkeppni um barnaverk á Norrænum Músíkdögum í Finnlandi árið 2013. Sagan er í senn heillandi og óhugguleg og því var mikilvægt að finna tónlistarlega leið sem gæti passað fyrir börn á grunnskólaaldri. Ragnheiður Gestsdóttir hafði lausnina; að setja þjóðsöguna inn í aðra sögu og skapa þannig mátulega fjarlægð frá mesta óhugnaðinum án þess að breyta sjálfri þjóðsögunni. Fyrstu tillögur að verkinu, fyrstu fimm mínúturnar, komust áfram í aðra umferð keppninnar og að lokum stóð verkið uppi sem sigurvegari. Það var frumflutt á finnsku en hefur síðar verið flutt á íslensku, sænsku og dönsku í mismunandi útgáfum, m.a. fyrir stóra sinfóníuhljómsveit.

Hér má finna stiklu af verkefninu en það er Brian FitzGibbon sem á heiðurinn af þessu myndbandi.  www.brianovideos.com

Um höfundinn Huga Guðmundsson

Hugi Guðmundsson nam tónsmíðar og raftónsmíðar við Tónlistarskólann í Reykjavík, Konunglegu tónlistarakademíuna í Kaupmannahöfn (MMus í tónsmíðum) og Sonology stofnunina í Den Haag (MA í tölvutónlist).

Hugi hefur hlotið fjölda viðurkenninga og verðlaun fyrir list sína og má þar nefna íslensku tónlistarverðlaunin fjórum sinnum, Kraumsverðlaunin, þrjár heiðurstilnefningar á alþjóðlega tónskáldaþinginu og fyrstu verðlaun í tónsmíðakeppni Norrænna músíkdaga í Finnlandi 2013 fyrir barnaverkið Djáknann á Myrká. Sinfóníhljómsveit Íslands hefur flutt verkið sex sinnum þar sem Halldóra Geirharðsdóttir var sögumaður og hefur það verið þýtt á ensku, finnsku, sænsku og dönsku.

Hugi hlaut Bjartsýnisverðlaunin árið 2014 en síðar það ár hlaut hann einnig hæsta styrk sem veittur er af danska ríkinu til tónskálda en hann er í formi þriggja ára starfslauna. Aðeins eitt tónskáld úr hverjum tónlistargeira hlýtur þennan styrk ár hvert.

Stærsta verk Huga til þessa er óperan Hamlet in absentia en fyrir hana hlaut hann íslensku tónlistarverðlaunin 2016. Óperan var jafnframt tilnefnd til hinna virtu Reumert sviðslistaverðlauna sem óperuuppfærsla ársins í Danmörku og er nú tilnefnt til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs.

Allt frá námslokum 2007 hefur Hugi starfað í Danmörku sem sjálfstætt starfandi tónskáld. Hann heldur þó alltaf miklum tengslum við Ísland og kemur þangað að lágmarki 3-4 sinnum á ári vegna ýmiskonar vinnu.

www.hugigudmundsson.com

Hér er ósk frá Djáknafélögum ef kennarar vilja leggja inn þjóðsöguna og spjalla um hana við nemendur.

Það væri gaman ef kennarar barnanna læsu fyrir nemendur ‘Djáknann á Myrká’, t.d. í sögustund. Ef áhugi og tími vinnst til gætu nemendur myndgert söguna í beinu framhaldi.

Ítarefnið er þjóðsagan sjálf: https://is.wikisource.org/wiki/Íslenzkar_þjóðsögur_og_æfintýri/Draugasögur/Djákninn_á_Myrká

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862)
þjóðsaga, ritstjóri Jón Árnason

Í fyrri daga var djákni einn að Myrká í Eyjafirði; ekki er þess getið hvað hann hét. Hann var í þingum við konu sem Guðrún hét; hún átti að sumra sögn heima á Bægisá hinumegin Hörgár og var hún þjónustustúlka prestsins þar. Djákninn átti hest gráföxóttan og reið hann honum jafnan; þann hest kallaði hann Faxa.

Einhverju sinni bar svo til litlu fyrir jól að djákninn fór til Bægisár til að bjóða Guðrúnu til jólagleði að Myrká og hét henni að vitja hennar í ákveðinn tíma og fylgja henni til gleðinnar aðfangadagskvöld jóla. Dagana áður en djákninn fór að bjóða Guðrúnu hafði gjört snjóa mikla og ísalög, en þann sama dag sem hann reið til Bægisár kom asahláka og leysing og þegar á leið daginn varð áin ófær fyrir jakaferðum og vatnagangi á meðan djákninn tafði á Bægisá. Þegar hann fór þaðan hugði hann ekki að því sem skipazt hafði um daginn og ætlaði að áin mundi enn liggja sem fyrr. Hann komst yfir Yxnadalsá á brú, en þegar hann kom til Hörgár hafði hún rutt sig. Hann ríður því fram með henni unz hann kemur fram á móts við Saurbæ, næsta bæ fyrir utan Myrká; þar var brú á ánni. Djákninn ríður á brúna, en þegar hann er kominn á hana miðja brestur hún niður, en hann fór í ána. Morguninn eftir þegar bóndinn á Þúfnavöllum[1] reis úr rekkju sér hann hest með reiðtygjum fyrir neðan túnið og þykist þekkja þar Faxa djáknans á Myrká. Honum verður bilt við þetta því hann hafði séð til ferða djáknans ofan hjá daginn áður, en ekki orðið var við að hann færi til baka og grunaði því brátt hvað vera mundi. Hann gengur því ofan fyrir túnið; var þá sem honum sýndist að þar var Faxi allur votur og illa til reika. Gengur hann síðan ofan að ánni, ofan á svokallað Þúfnavallanes; þar finnur hann djáknann rekinn örendan á nesinu framanverðu. Fer bóndi þegar til Myrkár og segir tíðindin. Djákninn var mjög skaddaður á höfðinu aftanverðu af ísjaka er hann fannst. Var hann svo fluttur heim til Myrkár og grafinn í vikunni fyrir jólin.

Frá því djákninn fór frá Bægisá og til þess á aðfangadaginn hafði engin fregn farið milli Myrkár og Bægisár um þessa atburði neina sökum leysinga og vatnagangs. En á aðfangadaginn var veður stilltara og hafði runnið úr ánni um nóttina svo að Guðrún hugði gott til jólagleðinnar á Myrká. Þegar leið á daginn fór hún að búa sig og þegar hún var vel á veg komin með það heyrði hún að það var barið; fór þá önnur kona til dyra sem hjá henni var, en sá engan úti enda var hvorki bjart úti né myrkt því tungl óð í skýjum og dró ýmist frá eða fyrir. Þegar stúlka þessi kom inn aftur og kvaðst ekki hafa séð neitt sagði Guðrún: „Til mín mun leikurinn gjörður og skal ég að vísu út ganga.“ Var hún þá albúin nema hún átti eftir að fara í hempuna. Tók hún þá til hempunnar og fór í aðra ermina, en fleygði hinni erminni fram yfir öxlina og hélt svo í hana. Þegar hún kom út sá hún Faxa standa fyrir dyrum og mann hjá er hún ætlaði að væri djákninn. Ekki er þess getið að þau hafi átt orðræðu saman. Hann tók Guðrúnu og setti á bak og settist síðan sjálfur á bak fyrir framan hana. Riðu þau þá svo um hríð að þau töluðust ekki við. Nú komu þau til Hörgár og voru að henni skarir háar, en þegar hesturinn steyptist fram af skörinni lyftist upp hattur djáknans að aftanverðu og sá Guðrún þá í höfuðkúpuna bera. Í þeirri svipan rak skýin frá tunglinu; þá mælti hann:

„Máninn líður,dauðinn ríður;sérðu ekki hvítan blettí hnakka mínum,Garún, Garún?“[2]

En henni varð bilt við og þagði. En aðrir segja að Guðrún hafi lyft upp hatti hans að aftan og séð í hvíta kúpuna; hafi hún þá átt að segja: „Sé ég það sem er.“ Ekki er sagt af samræðum þeirra fleirum né ferðum fyrr en þau komu heim að Myrká og fóru þau þar af baki fyrir framan sáluhliðið; segir hann þá við Guðrúnu:

„Bíddu hérna, Garún, Garún,meðan ég flyt hann Faxa, Faxaupp fyrir garða, garða.“

Að því mæltu fór hann með hestinn, en henni varð litið inn í kirkjugarðinn. Sá hún þar opna gröf og varð mjög hrædd, en tekur þó það til bragðs að hún grípur í klukkustrenginn. Í því er gripið aftan í hana og varð henni þá það að happi að hún hafði ekki fengið tíma til að fara nema í aðra hempuermina því svo var sterklega til þrifið að hempan gekk sundur um axlarsauminn á þeirri erminni er hún var komin í. En það sá hún síðast til ferða djáknans að hann steyptist með hempuslitrið er hann hélt á ofan í gröfina opnu og sópaðist moldin frá báðum hliðum ofan yfir hann. En það er frá Guðrúnu að segja að hún hringdi í sífellu allt til þess að bæjarmenn á Myrká komu út og sóttu hana; því af öllu þessu var hún orðin svo hrædd að hún þorði hvergi að fara né heldur hætta að hringja; því hún þóttist vita að hún hefði átt þar við djáknann afturgenginn þó henni hefði ekki áður komið nein fregn um lát hans. Enda gekk hún úr skugga um að svo hafði verið er hún náði tali af Myrkármönnum er sögðu henni upp alla sögu um lát djáknans og hún aftur þeim af ferðum sínum.

Þessa sömu nótt þegar háttað var og búið að slökkva ljósið kom djákninn og ásótti Guðrúnu, og voru svo mikil brögð að því að fólkið varð að fara á fætur og varð engum svefnsamt þá nótt. Í hálfan mánuð eftir þetta mátti hún aldrei ein vera og varð að vaka yfir henni hverja nótt. Sumir segja að presturinn hafi orðið að sitja á rúmstokknum hjá henni og lesa í Saltaranum. Nú var fenginn galdramaður vestur í Skagafirði. Þegar hann kom lét hann grafa upp stein einn mikinn fyrir ofan tún og velta heim að skálastafni. Um kvöldið þegar dimma tók kemur djákninn og vill inn í bæinn, en galdramaðurinn hneppir hann suður fyrir skálastafn og setur hann þar niður með særingum miklum, veltir hann síðan steininum ofan á og þar á djákninn að hvíla enn í dag. Eftir þetta tók af allan reimleik á Myrká og Guðrún að hressast. Litlu seinna fór hún heim til sín að Bægisá og er sögn manna að hún hafi síðan aldrei orðið söm og áður.

Hér má líta á stuttan myndbút af Djáknanum á Myrká.

Upplýsingar
Hvað

Tónlistarsaga

Hvenær

28. nóvember og 12. - 13 desember 2019

Hvar

Ísafjörður, Borgafjörður, Akranes

Hverjir

Tónlistarhópurinn Djákninn
Sverrir Guðjónsson sögumaður
Pétur Jónasson gítar
Haukur Gröndal klarinett
Sigurður Halldórsson selló

Aldurshópur

3. - 5. bekkur

Aðstaða og tækni

Svið